21.2.2025 | 18:14
Klaus Schulze Björnsson Rafpabbi Íslands frá Sandgerði
Það er til djúpur ósunginn kafli í íslenskri tónlistarsögu sem flestir kjósa að gleyma eða kannski aldrei vissu. Maðurinn sem lagði grunninn að öllu íslensku raftónlistarsulli sem á eftir kom. Hann er rafpabbi Íslands Klaus Schulze Björnsson og hann gerði það með tveimur snældum, gölluðum Moog og óendanlegri þráhyggju fyrir suði.
Klaus fæddist í Keflavík árið 1947 með flugvélahávaða sem vögguvísu á meðan norðanvindurinn gargaði. Faðir hans, Hans Dieter Schulz verkfræðingur flutti til Íslands eftir að hafa fallið í gegnum kerfið í Hamborg og sótt um vinnu við radarstöð í Keflavík. Þar hitti hann Guðrúnu Skúladóttur á balli í félagsheimilinu og úr varð þessi hálf-þýska hljóðvél. Klaus ólst upp í gráu milliástandi Keflavíkur og Sandgerðis milli hers og hafs, milli þokunnar og veruleikans þar sem hann þróaði með sér sérstaka þráhyggju fyrir hljóðum sem enginn annar nennti að hlusta á. Sem barn sat hann klukkutímum saman og hlustaði á suðið frá þvottavélinni á meðan hann teiknaði flóknar hljóðbylgjur sem enginn skildi.
Hann flakkaði á milli Keflavíkur og Sandgerðis á sínum yngri árum þar sem hann eyddi dögunum í að hlusta á þokulúðra og ímynda sér að þeir væru frumstæð form tónlistar eins konar geimdrónar náttúrunnar. Þegar aðrir krakkar fóru á dansleiki sat Klaus heima og hlustaði á viftuna í bílskúrnum.
Það var í Sandgerði þar sem tíminn sjálfur virtist hiksta og teygjast, en það var einmitt þar sem hann samdi sitt óumdeilanlega meistaraverk: Tímaklessan. Þetta var ekki plata í hefðbundnum skilningi heldur 34 mínútna hljóðeinangrun sem reyndi á þolinmæði hlustenda með hægum en óþægilega kröftugum drónum eins og að sitja fastur á bryggju í miðjum stormi og reyna að telja öldurnar en gefast svo upp á annarri mínútu.
Tímaklessan var tekin upp í yfirgefnu frystihúsi þar sem vindurinn klappaði á bárujárnsþakið og mávar hrópuðu í takt og þar sem sjálf þögnin fékk að hljóma sem hæðst. Klaus sagðist hafa reynt að fanga tilfinninguna að vera fastur einhvers staðar án þess að vilja fara en samt vilja fara, en samt ekki.
Platan fór undir radarinn á Íslandi og nginn keypti hana nema einn verkstjóri í Grindavík sem notaði hana sem svefnlyf fyrir hundinn sinn. En áratugi síðar tóku hipsterar í Berlín eftir henni og lýstu henni sem snilldarlegri úrvinnslu á tilvistarkreppu í draugalegu sjávarplássi.
Klaus sjálfur hvarf skömmu síðar til Þýskalands en sumir segja að hann hafi gengið út í fjöru Sandgerðis, lagst á bak við grjót og hlustað á hafið þar til hann sjálfur varð hluti af sjónum. Aðrir segja að hann hafi einfaldlega ekki nennt þessu lengur.
En þegar Suðurnesin verða hulin þoku og norðanáttin lemur grindverk Sandgerðis, heyrast stundum hægir drónar undir suði vindanna. Þá vita menn að Tímaklessan er enn í spilun. Hún hættir aldrei. Hún hefur engan endi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning